Á æfingu strax eftir sigurinn í gær

Leikmenn Chelsea fagna marki Johns Terry í gær.
Leikmenn Chelsea fagna marki Johns Terry í gær. AFP

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, sparaði ekki hrósið í garð fyrirliða síns, Johns Terry, eftir 2:0-sigur liðsins á West Ham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Hinn 34 ára gamli miðvörður skoraði fyrra mark Chelsea í leiknum og Mourinho sagði hann vera að spila alveg jafn vel og þegar hann leiddi liðið til sigurs í deildinni fyrir heilum tíu árum síðan.

„Hann er fullur sjálfstrausts. Ég sé sama John og árið 2004, 05 og 06. Eini munurinn er þegar tvíburarnir hans eru á æfingasvæðinu. Þeir voru fæddir á þessu tímabili og eru nú farnir að hlaupa um og sparka í bolta,“ sagði Mourinho.

Terry var svo valinn í lið vikunnar hjá BBC þar sem Garth Crooks sagði hann hæglega getað leikið með Chelsea til sjötugs.

En þrátt fyrir sigurinn í gær sendi Mourinho lið sitt beint á æfingu að leik loknum. Liðið mætir Southampton í deildinni svo strax á morgun. „Ég var með tvær æfingar skipulagðar á laugardag en þeir vældu svo mikið í klefanum eftir leik að ég ákvað að gera breytingu og láta þá æfa strax,“ sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert