Torres ánægður með Chelsea-dvölina

Fernando Torres átti misjöfnu gengi að fagna hjá Chelsea en …
Fernando Torres átti misjöfnu gengi að fagna hjá Chelsea en vann þar stóra titla. AFP

Spænski knattspyrnumaðurinn Fernando Torres kveðst vera ánægður með dvöl sína hjá Chelsea, enda þótt honum hafi gengið frekar illa að skora mörk fyrir Lundúnaliðið eftir að það keypti hann af Liverpool fyrir 50 milljónir punda.

„Ég átti ótrúlegan tíma hjá Chelsea í þrjú og hálft ár. Ég vann Meistaradeildina, Evrópudeildina og enska bikarinn. Hjá Chelsea náði ég þeim markmiðum sem ég stefndi að þegar ég yfirgaf Spán og síðan Liverpool. Ég vann titla," sagði Torres á fréttamannafundi í Madrid í dag en þar var hann kynntur til sögunnar sem leikmaður hjá uppeldisfélagi sínu, Atlético Madrid, sem hefur fengið hann lánaðan í 18 mánuði frá AC Milan.

Hann á reyndar ennþá eftir að gangast undir læknisskoðun hjá Atlético og formleg skipti hans þangað miðast  við 5. janúar.

„Það kemur alltaf að því að menn snúa heim. Ég var á áhorfendapöllum Atlético sem barn og það eru forréttindi að fá að koma aftur til félagsins. Það er heiður að vera á ný hluti af Atlético Madrid," sagði Torres ennfremur á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert