Hugsaði bara um að láta vaða

Jordan Henderson fagnar glæsimarki sínu í dag.
Jordan Henderson fagnar glæsimarki sínu í dag. AFP

Jordan Henderson, leikmaður Liverpool, var ansi skiljanlega sáttur eftir sigur liðsins á Englandsmeisturum Manchester City á Anfield í dag, 2:1. Henderson kom Liverpool yfir með gullfallegu marki en það var Philippe Coutinho sem skoraði sigurmarkið með ekki síðra skoti utan teigs.

„Við sýndum frábæran karakter að halda okkur inni í leiknum eftir að þeir jöfnuðu og svo tryggði Coutinho þetta fyrir okkur með frábæru marki. Við verðum að halda áfram núna, allir leikir eru stórir fyrir okkur. Við mætum Burnley næst og það verður erfiður leikur, en þessi úrslit gefa okkur mikið sjálfstraust,“ sagði Henderson, sem var að sjálfsögðu spurður út í markið sitt sem var af dýrari gerðinni.

„Við vorum að sækja hratt og Raheem [Sterling] gaf boltann á mig. Ég tók eina snertingu og hugsaði með mér að ég yrði að láta vaða. Sem betur fer fór hann inn,“ sagði Henderson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert