Ég brosti út að eyrum

Eiður Smári Guðjohnsen ræðir við fréttamenn í Astana.
Eiður Smári Guðjohnsen ræðir við fréttamenn í Astana. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton Wanderers, sagði á fréttamannafundi sínum í dag að það hefðu verið afar ánægjulegar fréttir fyrir sig að Eiður Smári Guðjohnsen hefði skorað fyrir Ísland í sigurleiknum gegn Kasakstan í Astana síðasta laugardag.

„Ég brosti út að eyrum þegar þær fréttir bárust að Eiður hefði skorað. Hans saga er stórkostleg," sagði Lennon þegar þetta barst í tal á fundinum.

Bolton tekur á móti Blackpool í ensku B-deildinni á laugardaginn og ekki kom annað fram á fundinum en að Eiður yrði klár í þann slag en hann og eiginkona hans eignuðust dóttur í gær.

Lennon sagði á dögunum að hann vildi semja við Eið Smára að nýju en Eiður kom til Bolton í desember og samdi til vorsins. Sjálfur staðfesti Eiður við mbl.is í Astana á dögunum að það væri langlíklegast að af því yrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert