Meiri stíll á okkar sigri

Manuel Pellegrini gefur sínum mönnum fyrirmæli í leiknum við Tottenham …
Manuel Pellegrini gefur sínum mönnum fyrirmæli í leiknum við Tottenham í gær. AFP

Manuel Pellegrini, knattspyrnustjóri Manchester City, segir að sitt lið hafi orðið enskur meistari á síðasta ári með mun meiri glans og stíl en Chelsea hefur gert á yfirstandandi keppnistímabili.

Chelsea tryggði sér meistaratitilinn 2015 í gær með sigri á Crystal Palace, 1:0, en liðið á enn þrjá leiki eftir í deildinni.

„Það er mikilvægt fyrir stuðningsmennina að spila skemmtilegan fótbolta. Við léku sama leik í fyrra og Chelsea gerir núna en við skoruðum 158 mörk á síðasta tímabili. Við skoruðum fleiri mörk og sýndum annan stíl,“ sagði Pellegrini eftir að hans menn unnu Tottenham 1:0 á útivelli og nánast gulltryggðu sér sæti í Meistaradeild Evrópu.

„Við erum áfram það lið sem hefur skorað flest mörk. Það er mikilvægt, að halda áfram að sigra og gera það á þennan hátt,“ sagði Pellegrini en lið hans hefur þó aðeins skorað tveimur mörkum meira en Chelsea í vetur. City hefur gert flest mörk allra í deildinni, 71, en Chelsea er með 69 mörk og síðan kemur Arsenal með 63.

Af þeim 158 mörkum sem City skoraði á síðasta tímabili voru 102 í úrvalsdeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert