Ómögulegt að jafna met Ferguson

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

José Mourinho vann sinn þriðja Englandsmeistaratitill fyrir Chelsea þegar þeir sigruðu Crystal Palace 1:0 á Stamford Bridge á sunnudaginn. Þetta var áttundi deildarmeistaratitill hins 52 ára gamla Portúgala á 12 árum en hann vann tvo með Porto, tvo með Inter og einn með Real Madrid.

Þegar Sir Alex Ferguson, sem hefur unnið 13 Englandsmeistaratitla, var 52 ára gamall hafði hann einungis unnið einn. 

Þrátt fyrir að Mourinho hafi áorkað miklu snemma á ferlinum útilokar hann þann möguleika að geta jafnað titlamet Ferguson og sagðist reikna með því að hann gæti unnið fimm titla áður en hann legðist í helgan stein.

„Ég á langt eftir en Sir Alex setti markið ótrúlega hátt fyrir alla. Það er ómögulegt. Ég get ekki unnið 13 Englandsmeistaratitla. Ég get unnið 13 deildartitla, ég hef unnið átta. En 13 Englandsmeistaratitlar? Ekki séns.“

Árangursríkustu þjálfarar í sögu enska fótboltans á eftir Ferguson eru Bob Paisley frá Liverpool og George Ramsay hjá Aston Villa, sem unnu báðir sex meistaratitla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert