Kemst Arsenal í sögubækurnar í dag?

Arsenal spilar til úrslita í FA-bikarnum í dag og mætir …
Arsenal spilar til úrslita í FA-bikarnum í dag og mætir þar Aston Villa. AFP

Í dag fer fram úrslitaleikur enska FA-bikarsins í knattspyrnu þegar Arsenal, sem á titil að verja, mætir Aston Villa á Wembley-leikvanginum í Lundúnum. Þetta er 134. úrslitaleikurinn sem spilaður er í þessari keppni, sem gerir hana að elstu bikarkeppni í heimi.

Villa sækist eftir sínum fyrsta titli frá árinu 1996. Síðast komst liðið næst því fyrir fimm árum síðan þegar liðið mætti Manchester United í deildabikarnum, en tapaði 2:1 eftir að hafa komist yfir. Liðið hefur engu að síður unnið þessa keppni, FA-bikarinn, sjö sinnum – síðast árið 1957, og hefur þrívegis tapað í úrslitunum, síðast árið 2000.

Arsenal getur hins vegar skráð sitt nafn í sögubækurnar með sigri, en liðið getur unnið sinn tólfta titil í þessari keppni. Arsenal trónir á toppnum ásamt Man Utd með ellefu sigra og með sigri sest Arsenal eitt liða í efsta sæti þess lista. Hvernig sem fer mun Arsenal þó setja met, en liðið tekur nú þátt í sínum nítjánda bikarúrslitaleik í þessari keppni og hefur ekkert annað lið náð svo oft í úrslitin.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert