Petr Cech genginn í raðir Arsenal

Petr Cech við undirskrift á samningi sínum við Arsenal.
Petr Cech við undirskrift á samningi sínum við Arsenal. mbl.is / Twitter síða Petr Cech

Búið er að staðfesta félagaskipti tékkneska markvarðarins Petr Cech frá Chelsea til Arsenal sem legið hafa í loftinu undanfarið. Skysports.com greinir frá þessu nú rétt í þessu. Talið er að kaupverðið sé um það bil 11 milljónir punda. Cech hefur leikið með Chelsea í 11 ár, en færir sig nú um set í Lundúnum. 

Opinber heimasíða Arsenal náði í skottið á Petr Cech eftir undirskriftina í dag og þar segir hann eftirfarandi um félagaskipti sín til Arsenal: 

„Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga til liðs við Arsenal og er fullur tilhlökkunar að hefja undirbúningstímabilið með liðinu. Ég hef jafn mikið hungur þegar kemur að knattspyrnunni og ég hafði í upphafi ferilsins og þrái það jafn mikið að vinna titla og áður“

„Þegar Arsene Wenger ræddi við mig um metnað félagsins í framtíðinni og það hlutverk sem hann ætlaði að fela mér hjá félaginu þá þurfti ég ekki að hugsa mig frekar um og var ákveðinn í að ganga til liðs við félagið.“

Arsene Wenger tjáði sig einnig um félagaskipti Cech til Arsenal í viðtali við opinbera heimasíðu Arsenal og hafði þetta um málið að segja:

„Petr Cech er leikmaður sem ég hef dáðst af í þó nokkurn tíma og ég er mjög ánægður með að hann sé kominn í okkar herbúðir. Hann hefur fyrir löngu sannað það að hann er framúrskarandi markvörður og hann mun styrkja lið okkar til mikils muna.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert