Blatter mætir ekki á HM kvenna

Sepp Blatter hættir líklega sem forseti FIFA í desember.
Sepp Blatter hættir líklega sem forseti FIFA í desember. AFP

Sepp Blatter, forseti alþjóða knattspyrnusambandsins, mun ekki heiðra verðandi heimsmeistara í knattspyrnu kvenna með nærveru sinni á úrslitaleiknum á HM í Kanada á sunnudaginn.

Þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 1998 sem Blatter afhendir ekki heimsmeisturum verðlaunabikarinn. Blatter hafði stefnt á að mæta á úrslitaleikinn en er nú hættur við af persónulegum ástæðum, eins og það var orðað. Varaforsetinn Issa Hayatou mun hins vegar verða viðstaddur leikinn.

Tvær glæparannsóknir standa nú yfir vegna meintrar spillingar innan FIFA. Blatter hefur gefið út að hann hafi ekki traust sem forseti FIFA og hugsanlegt er að langri valdatíð hans ljúki á sérstökum neyðarfundi framkvæmdastjórnar FIFA sem boðaður hefur verið í desember, þar sem kosið verður um nýjan forseta. Ekki er hins vegar útilokað að Blatter bjóði sig þar fram til áframhaldandi setu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert