Mourinho styður ákvörðun eigandans

Jose Mourinho, stjóri Chelsea.
Jose Mourinho, stjóri Chelsea. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea er stoltur af félaginu að hafa selt tékkneska markvörðinn Petr Cech til keppinauta sinna í Arsenal.

Eftir 11 tímabil hjá Chelsea var Cech loksins kynntur sem markvörður Arsenal á dögunum en Mourinho telur að það sé ákveðin yfirlýsing félagsins.

„Petr hefur verið stór leikmaður hjá félaginu í 11 tímabil og hjálpað okkur að vinna næstum allt. Ég hef alltaf sagt það að ég vildi hafa hann áfram, en ég skil hann algjörlega að hann vilji spila vikulega,“ sagði Mourinho.

„Stundum þarf maður að verða að óskum þeira sem hafa unnið sér inn svo mikla virðingu fyrir þjónustu sína og störf... Ég styð ákvörðun eigandans að virða þá ósk við leikmanninn á þennan hátt,“ sagði Mourinho.

„Það er mjög sjaldgæft í fótbolta að taka ákvörðun eins og þessa og af þeirri ástæðu er ég stoltur af félaginu. Það eru ekki mörg félög nógu stór í þessum heimi til þess að geta tekið slíka ákvörðun. Við munum muna eftir velgengni Petr hjá okkur og þökkum fyrir það sem hann gerði,“ sagði Mourinho en Cech kom til Chelsea ásamt Mourinho árið 2004.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert