„United reynir að fara á bak við Van Persie“

Hollendingurinn Robin van Persie.
Hollendingurinn Robin van Persie. AFP

Manchester United er að reyna að selja hollenska framherjann Robin van Persie án vitundar leikmannsins.

Þetta segir Pierre van Hooijdonk, fyrrverandi landsliðsmaður Hollendinga, en þrálátur orðrómur hefur verið uppi um að Van Persie sé á förum frá Manchester United í sumar. Van Persie var mikið frá vegna meiðsla á síðustu leiktíð og segir Hooijdonk að United hafi strax í janúar byrjað að svipast um eftir kaupendum á leikmanninum en samningur hans við Manchester-liðið rennur út á næsta ári.

„Van Persie er í erfiðri stöðu. Hann segir við heiminn að ég hann sé ánægður að vera áfram og ég get skilið það en Robin hefur þá tilfinningu að United vilji losna við hann,“ segir Hooijdonk við enska blaðið Daily Mail.

Félög í Tyrklandi eins og Galatasaray og Fenerbache hafa haft augastað á Van Persie en Hooijdonk lék á sínum tíma með Fenerbache.

„Auðvitað er gott að fá mikla mikla peninga og það er gott að lifa í Istanbúl. En deildin er ekki sú stærsta í Evrópu. Ég myndi ráðleggja Robin af fara frá United í sumar og öll merki eru um að félagið vilji selja hann,“ segir Hooijdonk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert