Arsenal-menn skjóta á erkifjendurna

Petr Cech við undirskrift á samningi sínum við Arsenal.
Petr Cech við undirskrift á samningi sínum við Arsenal. mbl.is / Twitter síða Petr Cech

Grannarnir Arsenal og Chelsea hafa lengi eldað grátt silfur saman í ensku úrvalsdeildinni, en það kemur fyrir að leikmenn fari á milli félaganna.

Dæmi um það eru William Gallas og Ashley Cole, en sá nýjasti er tékkneski markvörðurinn Petr Cech sem yfirgaf þá bláklæddu í sumar og mun standa á milli stanganna hjá Arsenal í vetur.

Stuðningsmenn Arsenal eru flestir í skýjunum yfir þeim kaupum og sumir eru þegar farnir að skjóta á Chelsea-menn á Twitter, eins og meðfylgjandi fylgja sýnir. Þar birti einn mynd af Cech fagna marki í Arsenal búningnum og skrifaði undir: „Þegar þú sérð liðið þitt skora mark í fyrsta sinn á ferlinum af því að það er engin rúta sem stendur fyrir þér.“

Vísar það til þess að Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Chelsea, var oft talinn helst til varnarsinnaður á síðasta tímabili og oft líkt við að hann hafi lagt rútu í eigin vítateig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert