Fær 140 þúsund pund á viku

Theo Walcott með Emirates-bikarinn sem Arsenal vann á dögunum.
Theo Walcott með Emirates-bikarinn sem Arsenal vann á dögunum. AFP

Santi Cazorla og Theo Walcott skrifuðu í dag undir nýja samninga við Arsenal. Samningur Cazorla við Arsenal er til tveggja ára, en Walcott skrifaði undir fjögurra ára samning. Talið er að Walcott fái um 140.000 pund á viku hjá Lundúnarliðinu. 

Cazorla kom til Arsenal frá Malaga árið 2012 og hefur skorað 23 mörk í 106 leikjum fyrir félagið. Walcott kom til Arsenal frá Southampton árið 2006 og hefur skorað 50 mörk í 208 leikjum fyrir félagið. 

Walcott var orðaður við brottför frá Arsenal í fyrra eftir að hafa verið inn og út úr liðinu um tíma á síðastliðnu keppnistímabili. Walcott átti hins vegar öflugan lokasprett í framlínu Arsenal undir lok síðustu leiktíðar og skoraði meðal annars þrennu gegn West Bromwich Albion og eitt marka Arsenal í sigrinum á Aston Villa í bikarúrslitaleiknum í vor.

Þessi frammistaða Walcott blæs honum þá von í brjósti að hann fái að leiða framlínu Arsenal á komandi keppnistímabili og þessi langi samningur sýnir að Arsene Wenger hefur trú á honum.

Walcott er sá leikmaður sem hefur leikið lengst fyrir félagið af núverandi leikmönnum liðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert