Orðspor Di Maria beðið hnekki

Di Maria lék með Argentínu á Copa America í sumar.
Di Maria lék með Argentínu á Copa America í sumar. AFP

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að Argentínumaðurinn Angel Di Maria gangi til liðs við franska liðið Paris Saint-Germain eftir aðeins ársdvöl hjá Manchester United. Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Manchester United, telur að Di Maria muni sjá eftir vistaskiptum sínum síðar á ferlinum og að orðspor hans hafi beðið hnekki.

„Hann mun alltaf vera með það á ferilskránni að hafa mistekist hjá Manchester United,“ sagði Ferdinand, sem vann deildina sex sinnum með félaginu. „Sem atvinnumaður myndi ég ekki vilja vera með eitthvað þvíumlíkt á ferilskránni. Ef ég gæti leiðrétt það sem miður fór með því að halda áfram hjá félaginu og sanna mig upp á nýtt myndi ég gera það.“

Di Maria er staddur í Doha þessa dagana þar sem hann klárar félagaskipti sín yfir til Paris Saint-Germain. Hann var keyptur til Manchester United fyrir tæpar 60 milljónir punda í fyrrasumar eftir að hafa slegið í gegn hjá spænska stórliðinu Real Madrid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert