Wenger sagður í verslunarleiðangri í París

Edinson Cavani skorar öðru sinni gegn Mónakó á dögunum.
Edinson Cavani skorar öðru sinni gegn Mónakó á dögunum. mbl.is/Skapti Hallgrims

Frakkinn Arsene Wenger er sagður vera staddur í verslunarferð í París af enskum fjölmiðlum. Samkvæmt þeim verður nóg að gera hjá knattspyrnustjóra Arsenal í vinnunni í dag en um er að ræða síðasta félagaskiptadag ársins í ensku úrvalsdeildinni. 

Wenger er sagður hafa mikinn áhuga á því að næla í Edinson Cavani sem leikur með PSG. Í sumar var Wenger sagður vilja næla í Frakkann Karim Benzema frá Real Madrid en þegar það gekk ekki mun Cavani vera efstur á óskalistanum. 

Þá nefna ensku blöðin einnig í morgun að miðjumaður PSG Adrien Rabiot hafi um nokkra hríð vakið áhuga Arsenal og því gæti Parísarferð Wengers einnig haft með Rabiot að gera.

Mirror segir frá því í dag að tyrkneska félagið Galatasaray hafi mikinn áhuga á því að kaupa Alex Oxlade-Chamberlain frá Arsenal. Tyrkirnir munu vera tilbúnir að borga umtalsvert fyrir starfskrafta Chamberlains og mun það vera hluti af stefnubreytingu tyrkneska stórveldisins að snúa sér frekar að ungum leikmönnum heldur en stjörnum á fertugsaldri eins og félagið hefur stundum gert. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert