„Benitez tapaði sálfræðistríðinu“

Rafael Benitez og Sir Alex Ferguson í leik Liverpool og …
Rafael Benitez og Sir Alex Ferguson í leik Liverpool og Manchester United á sínum tíma. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United á Englandi, segir að Rafael Benitez, fyrrum stjóri Liverpool, hafi tapað hinu afar umrædda sálfræðistríði sem var á milli þeirra á sínum tíma.

Benitez og Ferguson elduðu saman grátt silfur er þeir voru við stjórnvölin hjá sínum félögum en þegar Liverpool var á toppnum í ensku úrvalsdeildinni í janúar árið 2009 þá fór Benitez að ræða mikið um Ferguson til þess að setja pressu á liðið.

Benitez vildi alltaf tala í staðreyndum en enska orðið yfir það „Fact“ þótti afar vinsælt hjá honum og tókst honum að gera það að vinsælum frasa. Liverpool tapaði þó niður forskotinu á endanum og Manchester United stóð uppi sem sigurvegari en Ferguson ræddi um sálfræðistríðið á milli þeirra á dögunum.

„Vitandi það að ég gæti höndlað alla fréttamannafundi vegna reynslunnar sem ég hafði þá var ég alltaf með stjórn á þessu. Ég sá alltaf til þess að ég kæmi út sem sigurvegari á þessum fundum,“ sagði Ferguson.

„Með tímanum þá tókst Rafa að tapa þessu sálfræðistríði, sérstaklega þegar hann mætti með ræðu á blaði til þess að setja pressu á mig og Manchester United. Það gerði útslagið og ég þurfti í raun ekki að segja mikið eftir það,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert