Mourinho fyrir atvinnudómstól

Eva Carneiro og José Mourinho.
Eva Carneiro og José Mourinho. AFP

Eva Carneiro fyrrum liðslæknir Chelsea hefur undanfarið verið að undirbúa málsókn gegn Chelsea vegna meintrar ólöglegrar uppsagnar sinnar hjá félaginu en í dag kom í ljós að hún mun einnig sækja José Mourinho knattspyrnustjóra Chelsea, sérstaklega til saka fyrir sinn hlut í málinu.

Samkvæmt frétt Guardian hefur Press Association Sport undir höndum lagalega pappíra sem segja að Mourinho verði í aðskildu máli sóttur til saka í vikunni fyrir sinn hlut.

Það þýðir að Mourinho þarf að mæta fyrir sérstakan atvinnudómstól - nema að til sátta komi.

Málið hófst í ágúst í leik Chelsea gegn Swansea þegar Carneiro fór inn á völlinn til að hlúa að Eden Hazard, sóknarmanni Chelsea sem lá meiddur á vellinum. Mourinho taldi ekkert ama að Hazard sem í kjölfarið þurfti að fara út af vellinum þar hann fékk aðhlynningu frá lækni.

Varð Chelsea-liðið þarf með tveimur mönnum færri í nokkrar sekúndur og það var Mourinho ekki sáttur með. Lét hann því Carneiro heyra það fyrir framan alla á Stamford Bridge, heimavelli Chelsea. Carneiro var ekki aftur hluti af bekkjarsetuliði Chelsea.

Málið bætir aðeins gráu ofan á svart en Mourinho er undir gríðarlegri pressu þessa dagana enda gengur hvorki né rekur hjá Chelsea. Liðið hefur tapað sex leikjum af fyrstu 11 í deildinni og er þetta versta tíð Mourinho sem knattspyrnustjóra fyrr og síðar. Chelsea er ríkjandi Englandsmeistari en er í 15. sæti af 20 í deildinni.

Frétt the Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert