Eggert braut ísinn með fyrsta marki sínu

Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson. Eva Björk Ægisdóttir

Eggert Gunnþór Jónsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir enska C-deildarliðið Fleetwood Town þegar liðið lagði Millwall, 2:1, í nítjándu umferð deildarinnar í kvöld.

Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Eggert sem kom sínum mönnum á blað með skalla á 66. mínútu eftir undirbúning Tarique Fosu, en liðið hafði haft nokkra yfirburði í leiknum fram að markinu. Bobby Grant bætti svo við marki fyrir Fleetwood þegar tvær mínútur voru eftir, áður en Millwall minnkaði muninn í uppbótartíma. Lokatölur 2:1.

Fleetwood hefur gengið illa í C-deildinni, en liðið er í sautjándasæti af 24 liðum með 21 stig, tveimur stigum fyrir ofan fallsvæðið. Liðið hefur hins vegar nú unnið tvo leiki í röð og híft sig upp um ein fimm sæti á fjórum dögum. Eggert hefur verið valinn maður leiksins í báðum þessum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert