Grealish verður að þroskast

Grealish leikur ekki með Aston Villa um helgina.
Grealish leikur ekki með Aston Villa um helgina. AFP

Nýráðinn knattspyrnustjóri Aston Villa, Remi Garde, segir að Jack Grealish verði að þroskast. Grealish, sem er tvítugur, hefur verið bannað að æfa með aðalliði Villa og verður ekki í hóp í leik gegn Watford um helgina.

Ástæðan fyrir banninu er sú að Grealish fór út á lífið aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Villa tapaði 4:0 fyrir Everton um síðustu helgi. „Þegar þú ert 20 ára þá ertu fullorðinn,“ sagði Garde.

„Þú verður að vita það. Grealish verður ekki í leikmannahópnum gegn Watford um helgina. Hegðun eins og hann sýndi er ekki fagmannleg og ég bjóst ekki við þessu frá mínum leikmönnum,“ bætti Garde við.

Hann sagði einnig að það yrði líklega hæfileg refsing fyrir piltinn unga. „Hann spilar ekki um helgina og, eins og staðan er núna, tel ég það duga. Grealish hefur mikla hæfileika en þarf að bæta sinn leik og leggja hart að sér. Það er ekki vegna þess að hann er tvítugur, heldur vegna þess að allir knattspyrnumenn þurfa að leggja hart að sér til að vera í góðu standi í leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert