Munu Messi og Guardiola sameinast?

Lionel Messi og Luis Suarez fagna einu af sex mörkum …
Lionel Messi og Luis Suarez fagna einu af sex mörkum liðsins gegn Roma í Meistaradeildinni vikunni. AFP

Eins og greint hefur verið frá hér á mbl.is verða sögusagnir þess efnis að Pep Guardiola taki við stjórnartaumunum hjá Manchester City næsta sumar háværari með hverjum degi sem líður.

Guillem Balague, blaðamaður Skysports, skrifar um það pistil í dag að Lionel Messi muni mögulega verða lærisveinn Guardiola hjá Manchester City. 

„Það eru þrjú félög í ensku úrvalsdeildinni sem hafa falast eftir kröftum Lionel Messi og Manchester City er eitt þeirra. Ekkert félaganna þriggja hefur komist svo langt í viðræðunum að farið sé að ræða launamál, þess utan að Messi hefur verið lofað hærri launum en hann hefur hjá Barcelona,“ sagði Balague í pistli sínum.

Balague tekur það fram í pistli sínum að Messi líði vel hjá Barcelona og sé síður en svo áfjáður í að yfirgefa félagið.

„Messi er alls ekkert að flýta sér frá Barcelona, en ég tel að hann sé í fyrsta sinn reiðubúinn til þess að hlusta á það sem önnur félög hafi upp á bjóða. Ef Guardiola tekur við sem knattspyrnustjóri Manchester City mun það klárlega áhrif á ákvörðun Messi,“ segir Balague um framhaldið hjá Messi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert