„Kannski fer ég til Real Madrid!“

Touré í baráttunni við Bojan Krkic, leikmenn Stoke, í gær.
Touré í baráttunni við Bojan Krkic, leikmenn Stoke, í gær. AFP

Varnarbuffið Kolo Touré hefur trú á því að góður liðsandi Liverpool geti hjálpað liðinu á komandi vikum. Margir leikmenn glíma við meiðsli en sigurleikurinn gegn Stoke í deildabikarnum í gær var dýrkeyptur því Phil­ippe Cout­in­ho og Dejan Lovren fóru meiddir af velli.

Touré hefur trú á því að yngri leikmenn liðsins geti nýtt tækifærið og heillað Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra. „Liðið er ungt og strákarnir þurfa að læra að menn verða að leggja sig fram, hvar sem þeir leika. Maður lærir fljótt að það er enginn tími til að slappa af,“ sagði Touré og benti á að menn gætu ekki komið með hangandi haus í næsta leik.

„Það er eitt að leika eins og við gerðum gegn Stoke en ef við förum of rólegir í bikarleikinn gegn Exeter á föstudaginn og höldum að það verði auðvelt, þá lendum við í vandræðum. Við þurfum þennan liðsanda og baráttu í öllum leikjum,“ bætti Touré við en hann lék vel í gær og var fljótur að svara því hvað hann myndi gera þegar samningur hans rennur út í vor:

„Ef ég held áfram á þessari braut þá fer ég kannski til Real Madrid!“

Að öllu gamni slepptu sagðist Touré vonast til þess að leika áfram í ensku úrvalsdeildinni. „Vonandi held ég áfram því ég elska að spila fótbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert