Þú varst frábær - við þurfum þig á næstu leiktíð

Eiður Smári Guðjohnsen er sem stendur í leit að nýju …
Eiður Smári Guðjohnsen er sem stendur í leit að nýju félagi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Smári Guðjohnsen greinir frá því í viðtali við tímaritið Four Four Two, sem birtist í heild sinni í mars, að hann hafi aldrei fengið að vita hvers vegna dvöl hans hjá Tottenham á sínum tíma varð ekki lengri.

Eiður kom til Tottenham að láni frá Monaco í Frakklandi seinni hluta leiktíðarinnar 2009-10 og skoraði tvö mörk fyrir Lundúnaliðið. Hann naut sín enn betur hjá Chelsea nokkrum árum fyrr þar sem hann skoraði yfir 75 mörk og varð í tvígang Englandsmeistari, en líkaði dvölin hjá Tottenham einnig vel:

„Eflaust líkar mörgum Chelsea-mönnum illa að ég skuli segja það, en ég naut tímans hjá Tottenham. Við vorum með gott lið, með Gareth Bale og Luka Modric, og einnig menn eins og Peter Crouch, Ledley King, Niko Kranjkar, [Heurelho] Gomes í markinu, og marga aðra mjög góða fótboltamenn,“ sagði Eiður við Four Four Two. Um sumarið lauk lánsdvölinni hjá Tottenham og hann lék ekki fleiri leiki fyrir liðið.

Mjög nálægt því að fara til West Ham

„Það síðasta sem Harry Redknapp sagði við mig var: „Sjáumst á undirbúningstímabilinu. Þú hefur verið frábær fyrir okkur - við munum þurfa á þér að halda á næstu leiktíð.“ Úr því varð hins vegar ekki. Ég var enn með samning við Monaco og fór því aftur þangað. Hvort að það var vegna þess að félögin tvö náðu ekki saman um kaupverð mun ég í raun aldrei vita,“ sagði Eiður. Áður en hann fór til Tottenham stóð honum einnig til boða að fara til West Ham, þar sem fyrrverandi liðsfélagi hans hjá Chelsea var við stjórnvölinn.

„Ég var mjög nálægt því. Ég talaði við Gianfranco Zola [þáverandi stjóra West Ham] en á leiðinni til Englands var ég með Harry Redknapp í símanum. Hann hafði talað við umboðsmann minn og föður. Þegar ég lenti í London þurfti ég að taka ákvörðun: West Ham eða Spurs? Ég valdi liðið sem var að freista þess að komast í Meistaradeildina frekar en lið sem var að berjast á hinum enda töflunnar. Það var eina ástæðan fyrir ákvörðun minni,“ sagði Eiður.

Eiður Smári heldur hér á keppnistreyju Tottenham.
Eiður Smári heldur hér á keppnistreyju Tottenham. www.tottenhamhotspur.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert