Vill vera áfram á Englandi

José Mourinho
José Mourinho AFP

Portúgalinn José Mourinho er áberandi í enskum fjölmiðlum þessa helgina. Í sjónvarpsviðtali á Sky Sports, því fyrsta frá því að honum var sagt upp störfum hjá Chelsea, segir hann að hann vilji búa áfram á Englandi með fjölskyldu sinni og hann muni snúa aftur fyrr en varir.

„Þegar krakkarnir voru ungir gátum við farið og upplifað mismunandi lönd og í mínu tilfelli, mismunandi klúbba og mismunandi fótbolta, en það kemur að því að þau þurfi á stöðugleika að halda,” sagði Mourinho en hann hefur á síðustu dögum ítrekað verið orðaður við stjórastarf Manchester United.

„Við ákváðum að koma til Lundúna en í augnablikinu hef ég ekki starf. Ég veit ekki hvert fótboltinn mun leiða mig þar sem þú veist aldrei hvað gerist í þeim efnum, en það er öruggt að fjölskyldan verður í Lundúnum,” sagði Mourinho.

„Sem knattspyrnustjóri, þá hef ég unnið frá árinu 2000 og ég tók síðast hlé þegar ég fór frá Chelsea árið 2007. Ég tók þá hlé í nokkra mánuði og þetta er því í annað sinn sem ég hætti í 15-16 ár. Þetta ekkert drama, ég mun snúa aftur fyrr en síðar. Sem atvinnumaður, þá er ég klár í slaginn,” sagði Mourinho áður en hann tjáði sig um það sem fór úrskeiðis hjá honum á tímabilinu hjá Chelsea en þá var liðið komið í fallbaráttu.

„Ef þú ert hjá félagi sem vinnur, og þú vilt vinna aftur, þá þarftu að búa til óöryggi í sigurvegurunum. Til þess að gera það, þarf að láta þá efast, þú þarft að kaupa nýja leikmenn og taka þá úr þægindahringnum, því ef þú vinnur, þá er það eðlileg tilhneiging að fara aftur inn í þægindahringinn,” sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert