Leicester gæti fallið á næsta tímabili

Verður Leicester meistari í vor og fellur liðið síðan á …
Verður Leicester meistari í vor og fellur liðið síðan á næsta tímabili? AFP

Sparkspekingurinn og fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Michael Owen telur að Leicester geti fallið úr ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Leicester hefur sem kunnugt er komið gríðarlega á óvart á yfirstandandi tímabili og er liðið í efsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Owen var spurður að því hvort hann, sem góður leikmaður, myndi ganga til liðs við Leicester fyrir næsta tímabil, sem væri í Meistaradeildinni eða annað hvort Manchester United eða Liverpool, sem væru ekki í Meistaradeildinni.

„Manchester United eða Liverpool, þó þau væru ekki í Meistaradeildinni. Leicester gæti fallið á næsta tímabili. Þeir gætu unnið deildina á þessu tímabili og verið í fallbaráttu að ári liðnu,“ sagði Owen.

„Þeir missa ef til vill einhvern leikmann í sumar, til að mynda Mahrez. Þeir eru ekki með stóran leikmannahóp eins og United og Liverpool. Ég vona hins vegar að þeir haldi áfram að koma á óvart og vinni ensku úrvalsdeildina í vor,“ bætti Owen við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert