Barton farinn til Skotlands

Joey Barton situr á vellinum í leik með QPR gegn …
Joey Barton situr á vellinum í leik með QPR gegn Liverpool. AFP

Knattspyrnumaðurinn reyndi og oft umdeildi Joey Barton hefur samið til eins árs við gamla skoska stórveldið Rangers og gengur til liðs við það frá og með 1. júlí.

Barton er 33 ára miðjumaður og lék lengst af í ensku úrvalsdeildinni með Manchester City og Newcastle en síðan með QPR í  tveimur efstu deildunum. Hann var í láni hjá Marseille í Frakklandi veturinn 2012 – '13 og spilaði svo með Burnley á nýliðnu tímabili þar sem hann tók drjúgan þátt í að koma liðinu upp í úrvalsdeildina.

Barton hefur oft verið í fréttunum á skrautlegum ferli og m.a. sat hann í fangelsi í 77 daga árið 2008 eftir að hafa verið fundinn sekur um líkamsárás í miðborg Liverpool. Ári áður fékk hann skilorðsbundinn dóm fyrir að slasa liðsfélaga sinn, Ousmane Dabo, á æfingu hjá Manchester City.

Hann hefur enn fremur verið ákærður þrívegis af enska knattspyrnusambandinu fyrir ofsafengna hegðun, árásina á Dabo, fyrir að slá Morten Gamst Pedersen í kviðinn í leik og fyrir að ráðast á þrjá leikmenn Manchester City í lokaumferð tímabilsins 2011 – '12.

Barton hefur oft látið mikið fyrir sér fara á samskiptamiðlinum Twitter og verið óhræddur við að láta þar skoðanir sínar í ljós en þar fylgir honum á fjórðu milljón notenda.

Hann kemur til liðs við Rangers í kjölfar þess að félagið er aftur komið í skosku úrvalsdeildina eftir fjögurra ára fjarveru en Rangers var lýst gjaldþrota vorið 2012 og sent niður í neðstu deild. Rangers er sigursælasta félag heims í meistaratitlum talið en það hefur 54 sinnum orðið skoskur meistari og leikið fjóra úrslitaleiki í Evrópukeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert