Koeman er tekinn við Everton

Ronald Koeman er tekinn við Everton.
Ronald Koeman er tekinn við Everton. AFP

Hollendingurinn Ronald Koeman er formlega orðinn nýr knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni en fyrrum vinnuveitendur hans hjá Southampton samþykktu í morgun að leyfa honum að fara.

Koeman skrifaði undir þriggja ára samning við Everton, sem þarf að borga Southampton um fimm milljónir punda til þess að losa hann undan samningi. Everton rak Roberto Martinez úr starfi knattspyrnustjóra undir lok síðasta tímabils og hafa forráðamenn félagsins verið á eftir Koeman síðan þá.

„Ég er mjög spenntur að taka við Everton. Ég hef mikla trú á félaginu, liðinu og stuðningsmönnunum til þess að ná góðum árangri í framtíðinni,“ sagði Koeman.

Koeman stýrði Southampton í 91 leik síðustu tvö árin og sigurhlutfallið var 48,8%. 44 leikjanna unnust, hann tapaði 30 og gerði 17 jafntefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert