Ætlum að verða enskir meistarar

Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, á hliðarlínunni í leik liðsins …
Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, á hliðarlínunni í leik liðsins gegn Wigan Athletic. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, var kokhraustur fyrir komandi tímabil í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla eins og hans er von og vísa. Mourinho kveðst stefna á að verða enskur meistari á sínu fyrsta tímabili við stjórnvölinn hjá Manchester United. 

„Mig langar að standa uppi sem sigurvegari í ensku úrvalsdeildinni næsta vor. Við stefnum ekki bara á að enda í efstu fjórum sætunum heldur stefnum við á toppinn. Það væri ásættanlegt ef liðið myndi taka stórt skref átt að enska meistaratitlinum, en allt annað en titilbarátta yrði vonbrigði,“ sagði Mourinho á blaðamannafundi í Shanghai í dag.

Manchester United varð síðast enskur meistari árið 2013, en engum knattspyrnustjóra hefur tekist að landa sigri í ensku úrvalsdeildinni síðan Sir Alex Ferguson hætti eftir það tímabil. Manchester United var 15 stigum á eftir Leicester City sem urðu enskir meistarar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert