United fór illa með meistarana

Leikmenn Man Utd fagna einu af fjórum mörkum sínum í …
Leikmenn Man Utd fagna einu af fjórum mörkum sínum í fyrri hálfleik. AFP

Manchester United komst aftur á sigurbraut í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir tvö töp í röð þegar Englandsmeistarar Leicester komu í heimsókn. United fór með stórsigur af hólmi, 4:1.

Fyrirliðin Wayne Rooney var settur á bekkinn hjá United, sem þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu. Chris Smalling, sem bar fyrirliðabandið í dag, skallaði þá hornspyrnu í netið á 21. mínútu. Það var aðeins byrjunin.

Á 37. mínútu tvöfaldaði Juan Mata forystu United með hnitmiðuðu skoti utarlega í teignum og í kjölfarið fór mörkunum að rigna. Þremur mínútum síðar skoraði Marcus Rashford af fjærstöng eftir hornspyrnu og aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Paul Pogba sitt fyrsta mark fyrir United. Hann skallaði þá boltann í netið eftir hornspyrnu; þriðja mark United sem kom eftir eina slíka.

Staðan var því ansi vænleg fyrir United í hálfleik, 4:0, en ensku meistararnir klóruðu í bakkann í síðari hálfleik. Á 60. mínútu skoraði Demarai Gray fyrir þá og var markið af dýrari gerðinni, en hann skrúfaði boltann upp í skeytin með skoti utan teigs.

Bæði lið fengu færi eftir þetta, en ekki voru mörkin fleiri. United komst með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar, að minnsta kosti um tíma, og hefur þar tólf stig eftir sex leiki. Leicester er um miðja deild með sjö stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Paul Pogba og Jesse Lingard fagna í dag.
Paul Pogba og Jesse Lingard fagna í dag. AFP

90. Leik lokið. 

83. Wayne Rooney kemur inn fyrir Marcus Rashford. Hann lætur Chris Smalling hins vegar halda fyrirliðabandinu. 

68. Tvö fín tækifæri hjá United á skömmum tíma. Fyrst þrumaði Lingard yfir úr fínu færi, áður en hann lagði upp fyrir Zlatan sem náði góðu skoti á markið en Zieler bjargaði meistaralega.

60. Mark! Staðan er 4:1. Og þvílíkt mark! Demarai Gray fer illa með Lingard og Valencia og lætur svo vaða utan teigs. Boltinn endar uppi í samskeytunum fjær og David De Gea kemur engum vörnum við. Glæsilegt mark.

46. Meistararnir gerðu tvöfalda breytingu í hálfleik eftir afhroðið fyrir hlé. Andy King og Demarai Gray komu inn fyrir þá Jamie Vardy og Riyad Mahrez

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

Chris Smalling og Marcus Rashford fagna marki.
Chris Smalling og Marcus Rashford fagna marki. AFP

45. Hálfleikur. Þvílíkur fyrri hálfleikur að baki. Englandsmeistararnir eru heillum horfnir.

42. Mark! Staðan er 4:0. Hvað er í gangi hérna! þvílíkur kafli hjá United og þriðja mark þeirra sem kemur eftir hornspyrnu. Nú er það Paul Pogba, dýrasti knattspyrnumaður heims, sem skallar boltann í netið. Hans fyrsta mark fyrir United.

40. Mark! Staðan er 3:0. Annað mark United sem kemur eftir hornspyrnu. Hún er tekin stutt, Juan Mata fleytir boltanum áfram þar em Marcus Rashford er mættur á fjærstöng. Sá heldur áfram að sanna sig.

37. Mark! Staðan er 2:0. Frábær sókn United endar með marki. Pogba og Lingard spila skemmtilega sín á milli og Juan Mata fær boltann utarlega í teignum. Hann lætur bara vaða og boltinn syngur í netinu.

21. Mark! Staðan er 1:0. United kemst yfir. Það er Chris Smalling, sem ber fyrirliðabandið í dag, sem stekkur hæst í teignum eftir hornspyrnu og skallar boltann í netið.

Juan Mata og Marcus Rashford fagna.
Juan Mata og Marcus Rashford fagna. AFP

12. Það er kraftur í meisturunum sem hafa átt tvær efnilegar skyndisóknir. Fyrirgjafirnar hafa hins vegar verið að klikka hjá þeim til að gera alvöru úr færunum.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan. Þar er helst að frétta að Wayne Rooney, fyrirliði United, er settur á bekkinn.

Man Utd: De Gea; Valencia, Smalling, Bailly, Blind; Pogba, Herrera; Rashford, Mata, Lingard; Ibrahimovic.

Leicester: Zieler, Simpson, Huth, Morgan, Fuchs, Mahrez, Drinkwater, Amartey, Albrighton, Slimani, Vardy.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert