Funda í dag um framtíð Allardyce

Sam Allardyce.
Sam Allardyce. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur hafið rannsókn á ásökunum í garð Sam Allardyce, landsliðsþjálfara Englands, þess efnis að hann hafi veitt ráðleggingar um hvernig mætti fara á svig við reglur sambandsins.

Breska blaðið The Telegraph hefur undir höndum myndefni sem blaðið segir hafa verið tekið upp í ágúst, eftir að Allardyce hafði verið ráðinn landsliðsþjálfari. Þar sést, samkvæmt The Telegraph, þegar Allardyce hitti menn sem sögðust vera austurlenskir viðskiptajöfrar en voru í raun blaðamenn. Mun Allardyce hafa ráðlagt þeim um hvernig mætti komast framhjá reglum sem banna hið svokallaða eignarhald þriðja aðila á knattspyrnumönnum, og verið tilbúinn að taka við 400.000 pundum frá „fyrirtæki viðskiptajöfrana“.

Allardyce gerði líka grín að Roy Hodgson, forvera sínum í starfi landsliðsþjálfara, og gagnrýndi leikmenn landsliðsins. Þá sagði hann ákvörðun knattspyrnusambandsins um að endurgera Wembley vera heimskulega.

Enska knattspyrnusambandið hefur samkvæmt BBC beðið um öll gögn sem tengjast málinu og ætlar að fara vel yfir þau. Stjórn sambandsins hittist í dag en svo gæti farið að Allardyce stýri enska landsliðinu ekki í fleiri leikjum:

„Ég vil fá allar staðreyndir og heyra frá öllum sem að málinu koma til að geta ákveðið hvað skal gera. Það er réttlátt að komast til botns í málinu áður en ákvörðun er tekin. Það er ekki við hæfi að ákveða neitt fyrr. Í svona málum þarf að anda rólega,“ sagði Greg Clarke, formaður sambandsins.

Allardyce hefur stýrt Englandi í einum landsleik, í 1:0-sigri á Slóvakíu  í undankeppni HM fyrr í þessum mánuði. Hann ætlar að tilkynna leikmannahóp sinn á sunnudag fyrir næstu tvo leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert