„Viðbjóðslegt“ hjá Payet

Dimitri Payet sló í gegn með frábærri frammistöðu á fyrstu …
Dimitri Payet sló í gegn með frábærri frammistöðu á fyrstu leiktíð sinni með West Ham. AFP

West Ham hefur hafnað öðru tilboði frá Marseille í franska knattspyrnumanninn Dimitri Payet, sem vill losna frá Lundúnafélaginu.

Tilboð Marseille var upp á 20 milljónir punda, einni milljón punda hærra en fyrra tilboðið. Forráðamenn West Ham ætla ekki að láta neyða sig til að láta Payet fara ódýrt, enda hafði félagið ekki í hyggju að selja leikmanninn fyrr en að hann neitaði að spila fleiri leiki í búningi liðsins og fór fram á sölu.

Payet æfir ekki lengur með aðalliði West Ham vegna afstöðu sinnar, en forráðamenn félagsins hafa sagt að hann ætti að biðja stuðningsmenn afsökunar. Fyrrverandi framherji West Ham, Dean Ashton, sem varð að hætta að spila 26 ára gamall vegna meiðsla, segir hegðun Payet viðbjóðslega:

„Ég get ekki spilað lengur og ég get ekki lýst því hvað ég verð reiður þegar ég sé hvernig Payet lætur. West Ham elskar hann, hann er algjörlega dýrkaður, og engan grunaði að hann myndi láta svona. Hann er uppáhaldsleikmaður svo margra krakka. Það er viðbjóðslegt að hann skuli láta svona – neita að spila,“ sagði Ashton.

Payet kom til West Ham frá Marseille í júní 2015 fyrir 10,7 milljónir punda, skoraði 12 mörk á fyrstu leiktíð sinni með liðinu og var tilnefndur sem leikmaður tímabilsins. Hann er með samning sem gildir til ársins 2021.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert