Costa vill vera hérna áfram

Diego Costa hefur raðað inn mörkum fyrir Chelsea í vetur.
Diego Costa hefur raðað inn mörkum fyrir Chelsea í vetur. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að Diego Costa hafi ekki spilað með liðinu um síðustu helgi einfaldlega vegna þess að hann hafi verið meiddur. Rangt sé að það hafi verið vegna rifrildis við þjálfara.

Flestir enskir miðlar héldu því fram að Costa hefði ekki verið með Chelsea um síðustu helgi vegna rifrildis við einn af þjálfurum Chelsea-liðsins og risatilboðs frá kínversku félagi. Conte gerði sitt til að blása á þessar sögusagnir.

„Ég held að leikmaðurinn vilji vera áfram hjá Chelsea. Hann yrði ánægður með að vera hérna áfram og spila með okkur,“ sagði Conte.

„Ég sé ekkert vandamál í okkar liði. Ég heyrði ýmsar getgátur um Diego, en nú er það mikilvægast að hann hefur æft með okkur í vikunni, finnur ekki fyrir neinum verkjum í baki og getur spilað. Hann er okkur mikilvægur eins og allir vita. Þegar hann er klár í slaginn hefur hann alltaf spilað fyrir mig,“ sagði Conte.

Costa gæti spilað sinn 100. leik fyrir Chelsea á sunnudaginn þegar liðið mætir Hull, en Conte vildi ekki segja til um hvort af því yrði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert