Kínverjar bjóða Benítez fúlgur fjár

Rafael Benitez.
Rafael Benitez. AFP

Rafael Benítez, knattspyrnustjóri Newcastle, er undir smásjá tveggja kínverskra félaga sem eru reiðubúin að gera hann að launahæsta knattspyrnustjóra heims.

Talið er að boðið hljóði upp á 30 milljónir punda í árslaun, eða um 600 þúsund pund á viku, ef hann er tilbúinn til þess að fara til Kína í sumar. Það er álíka og framherjinn Carlos Tévez fær í laun þar í landi.

Þessar fjárhæðir mundu gera hann að langlaunahæsta stjóra heims. Andre Villas-Boas fær 11 milljónir punda á ári hjá liði Shanghai SIPG og Sven Göran Eriksson fær 4 milljónir punda á ári hjá Shenzhen, sem leikur í kínversku B-deildinni.

Benítez hefur stýrt Newcastle í um ár, en hann náði ekki að forða liðinu frá falli úr ensku úrvalsdeildinni í fyrra. Hann er hins vegar með liðið í öðru sæti B-deildarinnar og fátt virðist geta komið í veg fyrir að liðið fari upp. Benítez gerði Liverpool meðal annars að Evrópumeisturum árið 2005.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert