Barry slær leikjametið í kvöld

Gareth Barry hitar upp fyrir leikinn í kvöld.
Gareth Barry hitar upp fyrir leikinn í kvöld. AFP

Gareth Barry setur í kvöld nýtt leikjamet í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar hann spilar með WBA gegn Arsenal á Emirates-leikvanginum í London.

Þetta er 633. leikur Barry í deildinni og hann kemst framúr Ryan Giggs sem lék 632 leiki með Manchester United.

Barry lék sinn fyrsta leik 2. maí árið 1998, þá 17 ára gamall, með Aston Villa gegn Sheffield Wednesday. Hann er nú 36 ára gamall en hann lék 365 leiki með Villa í deildinni, síðan 132 fyrir Manchester City, 131 fyrir Everton og spilar í kvöld fimmta leikinn með WBA.

Barry lék 53 landsleiki fyrir Englands hönd á árunum 2000 til 2012.

„Ég er mjög stoltur af því að ná þessum leikjafjölda en ég mun fyrst og fremst einbeita mér að því að standa mig vel í þessum leik,“ sagði Barry við Sky Sports fyrir stundu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert