Þægilegt hjá Arsenal gegn Tottenham

Shkodran Mustafi að koma Arsenal yfir.
Shkodran Mustafi að koma Arsenal yfir. AFP

Arsenal vann 2:0 sigur á erkifjendum sínum í Tottenham í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu en leikurinn fór fram á Emirates-vellinum í Lundúnum á heimavelli Arsenal.

Skhodran Mustafi og Alexis Sánchez skoruðu mörk Arsenal með fimm mínútna millibili seint í síðari hálfleik. 

Mustafi kom Arsenal yfir með góðu skallamarki á 36. mínútu eftir aukaspyrnu frá Mesut Özil. 

Alexis Sánchez tvöfaldaði forystu Arsenal á 41. mínútu eftir stoðsendingu frá Alexandre Lacazette. Frakkinn virtist þó mögulega hafa verið rangstæður er hann fékk boltann.

Sigurinn er sá fyrsti í þrjú ár hjá Arsenal á Tottenham í deildinni en fyrir leikinn hafði Arsenal ekki unnið erkifjendur sína á þessum vettvangi í sex leikjum.

Christian Eriksen fékk besta færi Totteham í fyrri hálfleik en skot hans fór naumlega fram hjá og sleikti utanverða stöngina.

Harry Kane var mættur á ný í byrjunarliðið hjá Tottenham en hann er að koma til baka eftir meiðsli. Hann var þó ekki eins og hann á að sér að vera og var með miklar umbúðir sem benda til þess að meiðsli séu enn að plaga hann. Hann átti nokkrar marktilraunir en engar þó sem létu hjörtu stuðningsmanna Arsenal slá mikið hraðar.

Bæði Dele Alli og Kane misstu af vináttulandsleikjum Englands í landsleikjahléinu nýverið en þeir voru báðir í byrjunarliði Tottenham í dag.

Arsene Wenger stillti þríeyki sínu, Mesut Özil, Alexandre Lacazette og Alexis Sánchez, upp í byrjunarliðið en það er aðeins í þriðja skiptið sem Frakkinn reyndi gerir það á tímabilinu. Það svínvirkaði hins vegar í dag þar sem Lacazette og Özil lögðu upp mörkin tvö og Sánchez setti eitt.

Arsenal er komið með 22 stig í 5. sæti en Tottenham hefur áfram 23 stig í 3. sætinu.

Arsenal 2:0 Tottenham opna loka
90. mín. Leik lokið Arsenal vinnur góðan sigur!
mbl.is