Burnley er eins og snákur sem bítur þig í andlitið

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal, hrósaði Burnley og stjóra þess Sean Dyche í hástert á blaðamannafundi fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.

Wenger hefur verið knattspyrnustjóri Arsenal í meira en 20 ár, frá októbermánuði 1996, og hefur þurft að sitja þá nokkra blaðamannafundina og greip í ansi skemmtilega líkingu fyrir Burnley-liðið.

„Þeir hafa unnið leiki þegar þeir hafa haft boltann 25-30% af leiknum. Það þýðir að þeir eru rólegir og vita hvað þeir eru að gera. Eru þolinmóðir með drápseðli snáksins. Allt í einu eru þeir komnir í andlitið á þér og bíta þig,“ sagði Wenger um Burnley.

Burnley hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu og hefur 22 stig í 7. sæti. Jafnmörg og Arsenal sem hefur betri markatölu.

„Hefðirðu fyrir tímabilið spurt 100 manns hvort Burnley myndi hafa 22 stig á þessum tímapunkti hefðu 90 sagt nei og hinir 10 væru stuðningsmenn Burnley,“ sagði Wenger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert