Villeneuve segir Räikkönen ofmetinn og Massa verði betri hjá Ferrari

Jacques Villeneuve (t.h.) gaukar einhverju að Kimi Räikkönen hjá McLaren.
Jacques Villeneuve (t.h.) gaukar einhverju að Kimi Räikkönen hjá McLaren.

Jacques Villeneuve, heimsmeistari ökuþóra í formúlu-1 fyrir áratug, segir að Kimi Räikkönen sé ofmetinn og hafi ekki það vinnusiðferði til að bera til að geta talist í sama flokki og heimsmeistarinn Fernando Alonso.

Villeneuve segir álit sitt á keppnisliðum og ökuþórum í einkar gagnrýnu forspjalli að komandi keppnistíð í tímaritinu F1 Racing. Einna beittast er mat hans á Räikkönen sem hann segir of einsleitann ökuþór til að ná stöðugt toppárangri.

“Kimi er ofmetinn sem ökuþór því fyrir utan að setjast um borð í bílinn og fara hratt, þá er honum sama um allt annað. Hinn fullkomni ökuþór eyðir tíma með tæknimönnunum við að setja upp bílinn og knýr þá áfram. Honum er skítsama um þá hlið og er því ekki jafningi Alonso.

Sumpart eru ökuþórar af þessu tagi góðir fyrir formúluna – við þörfnumst ekki bara vélmenn. En maður veit aldrei hversu mikil helgun hans er. Hann virðist góður í einu móti en hverfur síðan í næsta móti. Maður getur alveg séð fyrir sér að hann hætti keppni og það af ástæðulausu,” segir Villeneuve.

Villeneuve telur að hæfileikar Räikkönens muni ekki duga til að fleyta Ferrari fram á við eftir að Michael Schumacher er hættur keppni. Telur hann að í staðinn eigi Felipe Massa eftir að blómstra og verða aðal ökuþór liðsins.

“Kimi getur ekki leitt liðið. Massa mun líklega taka við sem foringi liðsins. Hann var öflugur í fyrra, gerði stundum mistök en virtist ekki lélegur við hlið Michaels. Hann er kænn, hæfileikaríkur og hraðskreiður. Á góðum bíl getur hann keppt um titil. Í þeim slag munum við sjá hvort hann er frábær ökuþór eða bara góður. Hann gæti orðið frábær,” segir heimsmeistarinn fyrrverandi.

Villeneuve segir Massa sé óþekkjanlegan í dag miðað við akstur hans 2002

Villeneuve og Massa voru liðsfélagar hjá Sauber og segir hann Brasilíumanninn hafa þroskast svo frá jómfrúarárinu 2002 að hann sé nær óþekkjanlegur í dag í samanburði við þá tíma.

"Ég gagnrýndi hann heilmikið í fyrstu en hann var of ungur er hann kom inn í formúlu-1. Hann gat ekki einu sinni keyrt beint af viti. Eftir eins árs veru sem tilraunaþór hjá Ferrari var hann gjörbreyttur maður. Er við vorum liðsfélagar hjá Sauber var hann orðinn ótrúlegur: kraftmikill, þroskaður, einbeittur, lagði hart að sér - og við urðum vinir. Hann er jafnvel enn afslappaðri í dag. Þeir Kimi munu tvímælalaust takast á, en Felipe ætti að verða ofan á sakir vinnusiðferðis síns," segir Villeneuve.

Vel fer á með Massa og Villeneuve í bílskúr Sauber.
Vel fer á með Massa og Villeneuve í bílskúr Sauber. reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert