Ferrari brjálast yfir að McLaren skyldi sleppt við refsingu

Jean Todt liðsstjóri Ferrari var óhress með niðurstöðu íþróttaráðsins en …
Jean Todt liðsstjóri Ferrari var óhress með niðurstöðu íþróttaráðsins en hér kemur hann til fundar þess í París í dag. reuters

Ferrariliðið hefur tekið niðurstöðu íþróttaráðs Alþjóða akstursíþróttasambandsins (FIA) illa og segir „óskiljanlegt“ að sambandið skuli ákveða að refsa McLaren ekki þótt það hafi sagt liðið sekt af því að hafa haft óleyfileg gögn Ferrari í fórum sínum.

FIA sagði eftir vitnaleiðslur fyrir íþróttaráðinu að engar sannanir væru fyrir hendi um að McLaren hafi haft gagn af gögnunum sem lekið var frá Ferrari til aðalhönnuðar liðsins, Mike Coughlan. Þau fundust á heimili hans en McLaren segir þau aldrei hafa komið í bílsmiðju liðsins.

„Ferrari veitir því athygli að McLaren hafi verið sekt fundið fyrir íþróttaráði FIA. Það er því óskiljanlegt að brot gegn grundvallar forsendum um heiðarlegar íþróttir skuli ekki hafa í för með sér rökréttar og óhjákvæmilegar afleiðingar, refsingu. Ákvörðun FIA í dag lögleiðir sviksemi í formúlu-1 og gefur mjög alvarlegt fordæmi.

Staðreyndin er, að ákvörðun íþróttaráðsins merkir að varsla, vitneskja á æðstu stöðum og notkun á afar viðkvæmum upplýsingum sem komist er yfir með ólögmætum hætti og söfnun leynilegra gagna um nokkurra mánaða skeið eru refsilaus brot.

Sú staðreynd að McLaren hafði slíkar upplýsingar í fórum sínum uppgötvaðist fyrir algjöra slysni og án þess hefði liðið haft þau áfram. Þetta er því alvarlegra þar sem þetta á sér stað í íþrótt eins og formúlu-1 þar sem smáatriðin geta riðið baggamun.

Ferrari telur niðurstöðuna skaðlega fyrir trúverðugleik íþróttarinnar. Það mun halda áfram málarekstri sem þegar er í gangi í ítalska dómskerfinu og því enska,“ segir í yfirlýsingu Ferrari í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert