Alonso býst við óskoruðum stuðningi af hálfu McLaren

Hamilton (t.v.) og Alonso sitja fyrir svörum í mótorheimili McLaren …
Hamilton (t.v.) og Alonso sitja fyrir svörum í mótorheimili McLaren í Spa. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Þrátt fyrir hlutdeild hans í að McLarenliðinu hefur verið refsað í njósnamáli sem skekið hefur formúlu-1 undanfarna mánuði segist Fernando Alonso ganga út frá því sem vísu að McLarenliðið styðji hann skilyrðislaust áfram í tilraunum hans til að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra þriðja árið í röð.

“Ég hef engar áhyggjur,” sagði Alonso á fundi með blaðamönnum í mótorheimili McLaren síðdegis í gær, en þar sátu þeir Lewis Hamilton hlið við hlið og svöruðu spurningum blaðamanna. Sá síðarnefndi var tæpast spurður meðan kostur gafst.

Breskir blaðamenn gengu mjög hart á Alonso sem oftasta greip til þess ráðs að segjast ekki vilja tjá sig um efni spurninga og sagði staðhæfingarnar sem fram í þeim skoðun viðkomandi blaðamanns en ekki endilega staðreyndir. Vísaði hann að lokum á Ron Dennis sem síðar sat fyrir svörum.

"Ég er fyllilega sannfærður um og algjörlega ánægður með hvernig liðið kemur fram við þessar aðstæður. Það hefur alltaf sagt að það muni gera sitt besta til að vinna kappakstur og hjálpi báðum ökuþórum að vinna mót og titla. Þannig gengur það fyrir sig núna svo ég hef engar áhyggjur,” sagði Alonso sem er þremur stigum á eftir Hamilton í keppninni um titil ökuþóra fyrir belgíska kappaksturinn hér í Spa-Francorchamps.

Alonso stendur vel að vígi til að minnka muninn enn frekar þar sem hann varð sæti framar Hamilton í tímatökunum í gær, hefur keppni í þriðja sæti en Hamilton því fjórða. Á undan þeim eru Ferrariþórarnir Kimi Räikkönen og Felipe Massa.

McLaren var svipt stigum í keppni bílsmiða í ár og sektað um 100 milljónir dollara á fimmtudag fyrir að hafa í fórum sínum hugverk Ferrariliðsins, m.a. tæknilýsingar F2007-bíls Ferrari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert