Hamilton óhress vegna framferðis Alonso í fyrstu beygju

Fremstu bílar koma inn í fyrstu beygju eftir ræsinguna í …
Fremstu bílar koma inn í fyrstu beygju eftir ræsinguna í Spa. ap

Lewis Hamilton var óánægður með akstur liðsfélaga síns Fernando Alonso er þeir komu út úr fyrstu beygju kappakstursins í Spa-Francorchamps í dag. Sagði hann hafa sýnt ósanngirni og neytt sig útaf brautinni, en dró síðar úr gagnrýni sinni.

Alonso og Hamilton komu nær samsíða að beygjunni og var sá fyrrnefndi innanvert í henni. Hamilton segist vegna aksturs Alonso út úr beygjunni hafa orðið að aka útfyrir brautina, út á afrennslissvæði og yfir gerfigras sem greinir það af frá brautinni.

Óku þeir síðan hlið við hlið að Rauðavatnsbeygjunni þar sem Alonso komst fram úr.

"Sá sem utar fer vinnur ekki alltaf beygjuna, ég veit ekki hvort ég var komin framfyrir eða ekki, en það var nægt rými fyrir okkur alla til að komast þar um af sanngirni.

Hann lagði til mín og knúði mig eins utarlega og hægt var. Það var lán að afrennslissvæðið er breitt svo ég gat tekið því. Það er útilokað að fara á tveimur formúlubílum samsíða inn í Rauðavatnsbeygjuna öðru vísi en að falla báðir úr leik og því lyfti ég bensíngjöfinni þar," sagði Hamilton.

Hamilton runnin reiðin

Hamilton lét þessi ummæli falla rétt eftir að vera komin upp úr keppnisbíl sínum. Þegar lengra var frá liðið hafði honum runnið reiðin því hann segir í tilkynningu, sem McLarenliðið, eins og önnur lið, gaf út eftir kappaksturinn.

"Ég hugsaði ég "takk fyrir þetta" en ég býst við að svona hlutir gerist þegar menn eru í keppni um heimsmeistaratitil," segir Hamilton í tilkynningu McLaren.

Á blaðamannafundi með fyrstu þremur í kappakstrinum eftir sjónvarpsviðtal við þá galt Alonso því neiyrði að hann hefði tekið nýja stefnu í einvíginu við Hamilton þar sem McLaren væri ekki lengur með í keppni bílsmiða.

"Nei, sama stefna og fyrr," sagði Alonso og neitaði einnig spurningu hvort þeir Hamilton hefðu nuddað saman dekkjum er þeir óku út úr fyrstu beygju og í átt að Rauðavatnsbeygjunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert