Hamilton: Alonso sýnir McLaren ónóga hollustu

Hamilton slæst við Alonso innan vallar sem utan.
Hamilton slæst við Alonso innan vallar sem utan. ap

Lewis Hamilton hjá McLaren virðist hafa hrundið af stað sálfræðihernaði á hendur liðsfélaga sínum Fernando Alonso. Nú segir hann heimsmeistara ökuþóra ekki nógu hliðhollan liðinu.

„Ég held að liðið hafi lagt sig aukalega fram við hann þar sem Fernando var heimsmeistari er hann kom til liðsins. Sérstaklega var horft til hans í byrjun vertíðar sem náungans er færa myndi liðinu titil, liðið lagði sig í framkróka um að gera honum lífið bærilegt.

Við Pedro [de la Rosa] höfum gert það líka, við okkur var sagt: „reynið að láta Fernando líða sem hann sé velkominn í liðið. Það gerðum við og síðan sjáið þið hvað hann gerði liðinu,“ segir Hamilton og skírskotar til þess að Alonso, þrátt fyrir beiðni McLaren, vék sér undan því að mæta til vitnaleiðslanna í njósnamáli formúlunnar í París fyrir hálfum mánuði.

Tölvupóstur sem Alonso var með í fórum sínum átti þátt í að McLaren var sakfellt í njósnamálinu, sektað um 100 milljónir dollara og svipt stigum í keppni bílsmiða. Samband hans og liðsstjórans Ron Dennis hefur verið stirt síðan.

Þrátt fyrir það segist Hamilton ekki gera ráð fyrir að hann sjálfur njóti neitt meiri stuðnings frá McLaren í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Sú keppni stendur fyrst og fremst milli þeirra Alonso, aðeins munar á þeim tveimur stigum. Hamilton segir að vegna þess sem á undan sé gengið sé McLaren áfram um að vinna titilinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert