Hamilton öruggur sigurvegari og McLaren fagnar tvöfalt

Lewis Hamilton sprautar kampavíni eftir sigurinn í Melbourne.
Lewis Hamilton sprautar kampavíni eftir sigurinn í Melbourne. Reuters

Lewis Hamilton hjá McLaren var í þessu að vinna öruggan sigur í ástralska kappakstrinum í Melbourne. Annar varð Nick Heidfeld á BMW og þriðji Nico Rosberg á Williams. Maður dagsins var þó franski ökuþórinn Sebastien Bolurdais á Toro Rosso sem var fjórði er mótorinn gaf sig er hálfur annar hringur var eftir.

Sömuleiðis átti Fernando Alonso á Renault sérdeilis góðan dag en hann varðist Heikki Kovalainen á McLaren á lokahringjunum og varð  fjórði. Missti hann reyndar fram úr sér undir lok næstsíðasta hrings en tók fljótt fram úr aftur í upphafi þess síðasta.

Alonso hóf keppni í ellefta sæti og var lengi í því níunda en vann  sig upp á við á seinni hluta kappakstursins. Var hann einn nokkurra ökuþóra sem lögðu upp með aðeins eins stopps keppnisáætlun, en þar á meðal var Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

Heidfeld vann sig úr fimmta sæti upp í annað með vel útfærðri keppnisáætlun. Á grundvelli hennar vann hann sig fram úr Rosberg í öðru og afar snöggu þjónustustoppi. Rosberg hefur ekki fyrr komist á verðlaunapall í formúlu-1.

Liðsfélagi Heidfeld, Robert Kubica, hóf keppni annar og var framan af í öðru sæti. Hann varð að hætta keppni seint í mótinu vegna bilunar. Var þá reyndar vel utan verðlaunasæta.

Hamilton hóf keppni á ráspól og var aldrei ógnað. Byggði hann jafnt og þétt upp gott forskot sem gufaði tvisvar upp er öryggisbíllinn var sendur út í brautina vegna óhappa.    

Liðsfélagi Hamiltons, Heikki Kovalainen,  tapaði af öðru sætinu er öryggisbíllinn kom út seint í kappakstrinum vegna slæms óhapps Timo Glock hjá Toyota. Kovalainen var fram að því öruggur í öðru sæti. Glock rann út fyrir brautina og tókst á loft er hann ók á undarlegan bakka við brautarkant. Hann meiddist ekki en bíllinn laskaðist mjög.

Með þessu lauk þátttöku Toyota en Glock hafði ekið vel og unnið sig upp á við. Áður var Jarno Trulli fallinn úr leik vegna bilunar en hann hóf keppni í sjötta sæti.

McLaren fer frá mótinu með 14 stig en heimsmeistarar Ferrari ekki neitt. Vilja Ferrarimenn  áreiðanlega gleyma þessum degi sem fyrst en ökuþórar þeirra, heimsmeistarinn Kimi Räikkönen og Felipe Massa gerðu hver mistökin af öðrum.

Räikkönen átti betri ræsingu en flestir og vann sig upp um sjö sæti á fyrsta hring, úr 15. í það áttunda. Um tíma komst hann upp í þriðja sæti en ávinningurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu vegna tvennra ökumannsmistaka. Lenti í báðum tilvikum útfyrir braut og missti fjölda manna fram úr sér. Undir lokin bilaði svo Ferrarifákurinn en þá var hann  í sjöunda sæti. 

Felipe Massa var löngum aftarlega og gerði einnig mistök í örvæntingarfullri tilraun til að komast fram úr David Coulthard hjá Red Bull. Var það vonlaus tilraun og skullu ökuþórarnir saman. Coulthard flaug út úr brautinni er hann fékk Massa inn í sig miðjan og stórlaskaðist bíllinn. Massa virtist sleppa með ólaskaðan bíl frá atvikinu en eitthvað brást þó því skömmu seinna féll hann úr leik.

Talsvert var um árekstra og akstursóhöpp í kappakstrinum og féll meira en helmingur keppenda úr leik. Vegna brottfallsins  varð Bourdais á Toro Rosso í áttunda sæti þar sem allir á eftir honum voru fallnir úr leik er mótor hans gaf sig. 

Rubens Barrichello á Hondu stóð sig vel og varð sjötti en þegar þetta er ritað er óljóst hvort honum verður refsað vegna atvika í bílskúrareininni. Ók hann m.a. gegn rauðu ljósi á leið út úr reininni undir lokin. Farið gæti því svo að hann verði dæmdur frá og Räikkönen færist þannig upp í síðasta stigasætið, hið áttunda, og Bourdais upp í það sjöunda.

Annar nýliði, Kazuki Nakajima hjá Williams, átti góðan dag og varð sjöundi í mark. Sá síðasti sem skilaði sér alla leið yfir marklínuna. 

Lewis Hamilton, Nick Heidfeld og Nico Rosberg á verðlaunapallinum.
Lewis Hamilton, Nick Heidfeld og Nico Rosberg á verðlaunapallinum. Reuters
Hamilton í forystu rétt eftir ræsingu í Melbourne og Kubica …
Hamilton í forystu rétt eftir ræsingu í Melbourne og Kubica annar. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert