Alonso neitar því að eiga útgönguleið í samningi

Alonso í Barein í dag.
Alonso í Barein í dag. ap

Fernando Alonso neitaði því í dag að í samningi hans við Renault væri klásúla er gerði honum kleift að fara frá liðinu í árslok nái það ekki tilskildum árangri. Lausafregnir hafa verið um að hann kynni að vera á leið til Ferrari á næsta ári.

„Ég minnist ekki þessara klásúlu og ég réði mig til tveggja ára hjá Renault,“ sagði heimsmeistarinn fyrrverandi í Barein í dag. En bætti svo við: „Eins og við sáum í fyrra eru samningar alltaf sveigjanlegir.“

Með því skírskotaði hann til þess að hann fékk sig lausan undan þriggja ára samningi við McLaren eftir aðeins árs viðveru þar á bæ.

Spænskir fjölmiðlar hafa þótt gefa til kynna að Alonso ætti útgönguleið frá Renault og hafa bendlað hann við Ferrari vegna vandræða Felipe Massa þar á bæ.

Er hins vegar knúið var frekari svara hvort engin klausa væri í samningnum er opnaði honum leið frá Renault fyrr svaraði Alonso: „Nei.“

Tók Alonso fram, að hann ætlaði sér ekki að gefa Renault upp á bátinn en með liðinu varð hann heimsmeistari ökumanna 2005 og 2006. Renaultinn stóð bílum toppliðanna nokkuð að baki í fyrstu tveimur mótum ársins en það dregur ekki kjark úr Alonso.

„Við erum svekktir um getu okkar í tveimur fyrstu mótunum, en nú er enginn tími til uppgjafar. Þvert á móti vinnum við af krafti í því að bæta okkur og það kemur í ljós á miðri vertíð eða seinni hluta hennar hvar við virkilegum stöndum,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert