Hamilton biðst afsökunar

Framvængurinn brotnaði er Hamilton ók aftan á Alonso.
Framvængurinn brotnaði er Hamilton ók aftan á Alonso. ap

Lewis Hamilton bað liðsmenn sína hjá McLaren afsökunar á frammistöðu sinni í kappakstrinum í Barein að móti loknu. Hann lýsir frammistöðunni sem hörmung en hann varð þrettándi í mark eftir misheppnaða ræsingu og aftanákeyrslu.

Hamilton hóf keppni í fjórða sæti en féll niður í það tíunda á fyrstu metrunum vegna ræsingarmistaka þar sem hann drap nánast á bílnum. Hann reyndi að sækja og hugðist vinna sig hratt upp á við en tókst ekki betur til en svo að hann ók aftan á Renaultbíl Fernando Alonso.

Við það brotnaði framvængur silfurörvarinnar svo Hamilton varð að fara beint inn að bílskúr og fá nýja trjónu.

Hamilton sagðist hafa valdið liði sínu vobrigðum með því að geta ekki unnið úr stöðu sinni eftir startið og fært heim stig. Hann hét því að koma sterkur til baka í næsta móti.

„Þetta var hörmung, mjög slakur árangur og ég olli liðinu vonbrigðum. Ég mun samt bera höfuðið hátt og koma sterkur til baka í næsta móti,“ sagði hann. 

Hamilton sagðist hafa gert út um vonir sínar með ákeyrslunni á Alonso. Hann féll úr fyrsta sæti niður í það þriðja í stigakeppni ökuþóra og McLarenliðið féll úr fyrsta sæti í það þriðja í keppni bílsmiða, á eftir  BMW  og Ferrari.

Hamilton kveðst ekki hafa miklar áhyggjur yfir stöðu mála í stigakeppninni og segir lið sitt hafa bíla til að keppa um sigur og laga hana. „Ekki afskrifa mig strax,“ sagði hann að móti loknu.

Alla jafna brosir Hamilton breitt en þó ekki eftir keppni …
Alla jafna brosir Hamilton breitt en þó ekki eftir keppni í Barein. ap
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert