Renault lofar Alonso mun betri bíl í Barcelona

Alonso í Barein þar sem hann varð tíundi.
Alonso í Barein þar sem hann varð tíundi. ap

Fernando Alonso hefur verið heitið „verulegum endurbótum“ á Renaultbílnum fyrir Spánarkappaksturinn, sem fram fer í Barcelona eftir þrjár vikur.

Alonso sagði eftir keppnina í Barein að Renault væri að óbreyttu ekki upp á marga fiska, en hann varð í tíunda sæti. Ólíkt fyrstu tveimur mótunum fór hann því með engin stig af hólmi.

Hann sagðist myndu þreyja þorrann og væri í engu svekktur. Ljóst er að bæði hann og Renault binda miklar vonir við umfangsmiklar endurbætur sem gerðar verða á bílnum fyrir Barcelona.

Er verkfræðistjórinn Pat Symonds var spurður að því í Barein hvað myndi breytast fyrir heimakappakstur Alonso í Barcelona sagði hann: „Heilmikið. Öll liðin eru með umfangsmikil verkefni sem þau bíða með fyrstu þrjú mótin en þá eru ekki gerðar miklar breytingar á bílunum. Því breytist margt.“

„Við erum að vinna í endurbættri yfirbyggingu og loftaflsbúnaði  sem gengið hefur vel. Prófuðum hluta hans í Elvington í síðustu viku og erum tiltölulega ánægðir með hann. Sömuleiðis erum við með góðar lausnir í fjöðrunarbúnaði.

Allt er þetta afstætt því önnur lið eru líka með endurbætur. Við verðum bara að taka hlutfallslega stærra skref en þau. Og ég vona að nýjungar okkar geri einmitt það kleift. Það vona ég,“ sagði Symonds.

Hann telur að endurbæturnar muni jafngilda hálfrar sekúndu framförum á hring. Uppfærslur skila að jafnaði 0,3 sekúndu bætingu og verði spádómar hans sannir gæti það þýtt að Renaultbíllinn blandi sér aftur í stigabaráttuna.

Symonds segir að Renault sé enn að vinna sig út úr vandamálum sem hrjáðu liðið í fyrra og reyna draga mótherjana uppi. „

"Fernando ekur af öllum lífs- og sálarkröftum, sem er frábært. Það er það sem okkur hjá Renault finnst svo magnað við hann, hann leggur sig fram af öllu hjarta.

Við glímdum við þessi vandamál í fyrra, greindum þau, reyndum að laga þau, en erum enn á eftir. Tíminn sem fór í það var því ekki notaður í þróunarvinnu,“ segir Symonds við vefsetrið autosport.com.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert