Räikkönen öruggur - Ferrari fagnar margfalt

Räikkönen fagnar sigri í Barcelona.
Räikkönen fagnar sigri í Barcelona. reuters

Kimi Räikkönen var í þessu að vinna öruggan sigur í Spánarkappakstrinum í Barcelona og auka forystu sína í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra. Ferrari fagnar tvöföldum sigri því Felipe Massa varð annar og liðið fagnar því líka að hafa í fyrsta sinn á vertíðinni tekið forystu í stigakeppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.

Räikkönen hóf kappaksturinn af ráspól og hélt fyrsta sætinu örugglega í ræsingunni. Honum var aldrei ógnað og á leið til sigurs setti hann hraðasta hring dagsins.

Massa vann sig fram úr hetju heimamanna, Fernando Alonso, í kapphlaupinu að fyrstu beygju og var sömuleiðis aldrei ógnað í öðru sæti. 

Alonso reyndist á aðeins léttari bíl en aðrir fremstu menn og tók sitt fyrsta þjónustustopp einum þremur hringjum fyrr. Við það komust Lewis Hamilton á McLaren og Roberto Kubica á BMW fram úr honum. Fimmta sætið blasti við en er kappaksturinn var rétt rúmlega hálfnaður brást Renaultmótorinn og féll Alonso þar með úr leik.

„Þetta er miður, sérstaklega hér á Spáni, en við þessu er ekkert að gera. Bíllinn var góður og stóð bílum BMW og McLaren nánast á sporði svo ég er þrátt fyrir allt ánægður. Ánægður með framfarirnar í bílnum og við eigum bara eftir að bæta okkur í næstu mótum ef eitthvað er,“ sagði Alonso við frönsku sjónvarpsstöðina TF1 meðan á útsendingu stóð.

Tíðindi mótsins telst óhapp Heikki Kovalainen hjá McLaren sem flaug á vel yfir 200 km hraða út úr brautinni og grófst inn í öryggisvegg. Virtist sem hafi brotnað úr felgu með þeim afleiðingum að dekk sprakk og fjöðrun laskaðist svo ekkert varð við bílinn ráðið.

Samkvæmt nýjust  fregnum virðist sem Kovalainen hafi sloppið ótrúlega frá högginu mikla eða í mesta lagi með mar hér og þar og lítilsháttar tognun. Er bíllinn grófst inn í öryggisvegginn brotnaði framendinn af, að hjólum og fjöðrunarbúnaði meðtöldum.

Kovalainen var fluttur á brott á sjúkrabörum og eftir skoðun í læknismiðstöð brautarinnar var hann fluttur með þyrlu á sjúkrahús til nánari skoðunar.

Með úrslitunum í dag breytist staðan nokkuð í keppninni um heimsmeistaratitla formúlunnar. Räikkönen jók forystu sína í keppni ökuþóra úr þremur stigum í níu. Hamilton komst í annað sætið, er með 20 stig,  en úr því féll Nick Heidfeld hjá BMW  og niður í fimmta þar sem hann hlaut engin stig í dag.

Kubica er þriðji með 19 stig, stigi á eftir Hamilton, og Massa einu stigi þar á eftir í fjórða sæti.  

Með því að hljóta fullt hús, eða 18 stig, komst Ferrari fram úr BMW í keppni bílsmiða og hefur 12 stiga forystu, 47:35, á BMW og 13 stig á McLaren. Red Bull komst upp fyrir Renault með fimmta sæti Webbers og Honda vann sín fyrstu stig á árinu er Jenson Button varð sjötti.

Úrslit kappakstursins í Barcelona

Staðan í stigakeppni ökumanna og bílsmiða

Räikkönen fagnar sigri í Barcelona.
Räikkönen fagnar sigri í Barcelona. reuters
Bíll Kovalainen grófst inn í öryggisvegginn og liggur fargið að …
Bíll Kovalainen grófst inn í öryggisvegginn og liggur fargið að hluta til á ökuþórnum. ap
Spánarkonungur (l.t.h.) heilsaði upp á Alonso fyrir keppni.
Spánarkonungur (l.t.h.) heilsaði upp á Alonso fyrir keppni. reuters
Räikkönen fremstur inn í fyrstu beygju í Barcelona.
Räikkönen fremstur inn í fyrstu beygju í Barcelona. reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert