Räikkönen: Höfum ekki við Mercedes

Räikkönen segir Ferrarifákinn skorta hraða til að slást á toppnum.
Räikkönen segir Ferrarifákinn skorta hraða til að slást á toppnum. mbl.is/afp

Kimi Räikkönen hefur játað að Ferrari skorti hraða til að keppa við ökumenn Mercedes í kappakstrinum í Barein í dag. Engu að síður kveðst hann hafa betri tök á Ferrari-fáknum en fyrr.

„Ég er nokkuð ánægður með tímatökuna því fram að þeim leið mér ekki vel í bílnum. En tiltrúin á það sem við vorum að gera kom mér aftur á sporið og var endurgoldin með þessum úrslitum,“ sagði Räikkönen eftir tímatökuna en þar hafnaði hann í sjötta sæti.

„Við erum að bæta okkur á öllum sviðum, hvað vélina varðar, gagnasöfnun og úrvinnslu, rafeindakerfið og nýir íhlutir hafa verið til bóta,“ bætti hann við.

Räikkönen vildi fara varlega í alla spádóma vegna þess hversu erfiður bíllinn hafi verið á millihörðu dekkjunum á æfingunum í Barein. „Við erum ekki í þeirri stöðu sem við vildum vera, en erum á réttri leið og með góðum mannskap getum við haldið áfram á þeirri braut.

Það er erfitt að segja nokkuð um kappaksturinn því er ég líkti eftir slíkum á föstudagsæfingunum átti ég í basli með harðari dekkin en jafnvægið var betra á þeim mýkri. Við vitum að við getum ekki keppt við Mercedes en ég er þó bjartsýnni á betri úrslit en áður og mun leggja mig fram um að skila sem bestum hlut,“ segir Räikkönen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert