Bottas undraðist bílhraðann

Valtteri Bottas hjá Williams sló í gegn og varð annar í mark í breska kappakstrinum í Silverstone í dag eftir að hafa byrjað í 14. sæti. Hann sagðist undrast þann hraða sem bíll hans bjó yfir í brautinni.

Kappaksturinn út í gegn vann Bottas sig jafnt og þétt fram á við og tók fram úr hverjum bílnum á fætur öðrum með glæsibrag.

„Við vissum að við værum með hraðskreiðan bíl, en hann var óvenju fljótur í dag,“ sagði Bottas og bætti við að Williamsbíllinn hefði komið sér þægilega á óvart.

„Fram að fyrsta stoppi var hraðinn mjög góður og ég færðist fram á við. Stundum þarf maður að taka talsverða áhættu til að komast fljótt fram úr en það gekk allt greiðlega fyrir sig í dag.“

Bottas segir árangur sinn kraftbirtingarform þess að Williamsliðið sé í mikilli framför. Árangurinn í dag og í Austurríki fyrir hálfum mánuði - þar sem hann komst á verðlaunapall í fyrsta sinn á ferlinum - votti það.

„Ég er virkilega ánægður með hvað við höfum verið að gera. Keppnishraðinn sýnir að við erum að þróa bílinn rétt,“ segir hann.

Liðsfélagi Bottas,  Felipe Massa, varð að hætta keppni á fyrst hring eftir að hafa dregist inn í hið harkalega óhapp Kimi Räikkönen hjá Ferrari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert