Williams fram úr Ferrari

Valtteri Bottas (framar) hjá Williams og Fernando Alonso hjá Ferrari …
Valtteri Bottas (framar) hjá Williams og Fernando Alonso hjá Ferrari í návígi í kappakstrinum í Hockenheim. mbl.is/afp

Það bar til tíðinda í þýska kappakstrinum í Hockenheim í gær, að Williams-liðið - með frábærri frammistöðu unga finnska ökumannsins Valtteri Bottas - tók fram úr Ferrari í keppninni um heimsmeistaratitil bílsmiða.

Williams er með 121 stig að kappakstri loknum en Ferrari 116 stig. Nokkuð er í næsta lið fyrir ofan, Red Bull, sem er í öðru sæti með 188 stig. Og langefst er vitaskuld Mercedes með hvorki færri né fleiri stig en 366, næstum því tvöfalt fleiri en Red Bull. 

Hvert sæti í keppni bílsmiða skiptir miklu máli þegar kemur að skiptingu tekna af formúlu-1. Því framar, því meira fær lið í sinn skerf.

Bottas upp fyrir Vettel

Með öðru sætinu skaust Bottas svo upp fyrir Sebastian Vettel í keppninni um titil ökumanna. Er hann fimmti með 91 stig en Vettel sjötti með 82. Og Bottas er með Fernando Alonso í sigtinu því hann er fjórði með 97 stig. 

Þriðji er Daniel Ricciardo hjá Red Bull með 106 stig. Ökumenn Mercedes eru hins vegar í algjörum sérflokki, Nico Rosberg með 190 stig og Lewis Hamilton með 176.

Valtteri Bottas á leið til annars sætis í þýska kappakstrinum …
Valtteri Bottas á leið til annars sætis í þýska kappakstrinum í Hockenheimring. mbl.is/afp
Með frammistöðu sinni í Hockenheim kom Valtteri Bottas Williamsliðinu upp …
Með frammistöðu sinni í Hockenheim kom Valtteri Bottas Williamsliðinu upp fyrir Ferrari. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert