Massa bjartsýnn á framhaldið

Massa verður fyrst að klára mót til að geta haft …
Massa verður fyrst að klára mót til að geta haft eitthvað í ökumenn Mercedes að gera. mbl.is/afp

Felipe Massa hjá Williams kveðst vongóður um að liðið eigi eftir að styrkjast enn frekar og sækja í sig veðrið á seinni helmingi vertíðarinnar.

Williams átti afleitt ár í fyrra og vann aðeins fimm stig á einhverri slökustu keppnistíð í sögu liðsins. Gangurinn hefur verið allt annar í ár og í sarpinn komin 135 stig eftir 11 mót.

Framundan er keppni á hröðum brautum sem Massa segir ættu að henta Williamsbílnum vel. Og svo bjartsýnn er hann, að hann telur þá Valtteri Bottas ættu að geta velgt Mercedesmönnum vel undir uggum í t.d. Spa Francorchamps og í Monza.

„Ég er viss um að seinni vertíðarhelmingurinn getur orðið okkur hagstæður, miðað við hvernig bílnum hefur farið fram,“ segir Massa. „Spa and Monza ættu að henta okkur vel, jafnvel Austin og Sao Paulo og í Abu Dhabi eru góðir langir kaflar. Bíllinn gæti orðið samkeppnisfær á mörgum brautum, ekki bara í Spa og Monza.

Þar gætum við verið með öflugasta móti og þótt Mercedesmenn verði ekki auðveldir viðfangs er ekki útilokað að við gætum haft meira í þá að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert