Alonso gæti gengið út frá Ferrari

Alonso og Dennis á góðri stundu.
Alonso og Dennis á góðri stundu.

Næstkomandi mánudag gæti opnast möguleiki fyrir Fernando Alonso að segja skilið við Ferrari, kjósi hann að róa á önnur mið eftir árangurslitla tíð hjá ítalska liðinu.

Liðsstjórinn Marco Mattiacci hefur sagt, án formlegrar staðfestingar þó,  að  ökumenn Ferrari á næsta ári verði hinir sömu og í ár, Alonso og Kimi Räikkönen.

Og ekki er búist við slíkri tilkynningu á ítalska kappakstrinum í Monza um komandi helgi.  Mattiacci segir að þar þurfi ekkert að tilkynna því ökumennirnir séu samningsbundnir út næsta ár.

Tæknilega mun það rétt vera en þýska blaðið Auto Motor und Sport segir að allt sé breytingum undirorpið. Í samningi Alonso sé nefnilega klásúla sem veiti honum útgönguleið verði hann ekki minna en 25 stigum á eftir forystusauðnum í stigakeppni ökumanna við lok ítalska kappakstursins.

Sem stendur er Alonso næstum 100 stigum á eftir Nico Rosberg hjá Mercedes. Þótt hann hafi með því útgönguleið er ekki þar með sagt að hann stökkvi frá borði. Hermt er þó að McLarenstjórinn Ron Dennis sé reiðubúinn að borga honum 32 milljónir dollara á ári til að ganga í herbúðir liðsins á ný.

Herma breskir fjölmiðlar að Dennis hafi þegar rætt við Alonso en hann entist aðeins eitt ár, 2007, á sínum tíma hjá McLaren vegna deilna við Dennis. Til sín vill Dennis hann aftur til að stýra McLaren inn í keppni með Hondavélar í stað Mercedesvéla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert